Select Page

upplýsingar

fyrir börn

á aldrinum sjö til ellefu ára sem eiga foreldri á geðdeild

þetta eru upplýsingar fyrir börn sem eiga foreldri sem hefur verið eða er á geðdeild. átt þú foreldri sem hefur farið á geðdeild?

Þegar foreldri þitt er á sjúkrahúsi er eðlilegt að það komi upp alls konar tilfinningar, þú hefur kannski áhyggjur eða ert hrædd/ur.
Þú ert kannski með margar spurningar en veist ekki við hvern þú átt að tala. Við vonum að þessi bæklingur geti hjálpað þér.
Það gæti verið góð hugmynd að biðja einhvern fullorðinn um að lesa upplýsingarnar með þér svo þú getir spurt spurninga ef það er eitthvað sem þú skilur ekki eða vilt vita meira um.

Það eru tveir hlutir sem er mikilvægt að vita:

1. Þú þekkir kannski engan sem á foreldri á geðdeild og líður eins og þú sért ein/n, en það eru fleiri börn sem eru í sömu stöðu og þú.

2. Fullorðnir þurfa stundum að fara á sjúkrahús vegna þess að þeir eru veikir. Það er aldrei þér að kenna.

Hvers vegna er mamma mín eða pabbi á sjúkrahúsi?

Foreldri þitt er á sjúkrahúsi vegna þess að það er veikt. Þessi tegund af veikindum heitir geðrænn vandi. Allir hafa geðheilsu og geta einhvern tímann fengið geðræn veikindi. Stundum þarf sá sem er með geðrænan vanda að fara á geðdeild og fá aðstoð við að líða betur.

Hvað er geðrænn vandi?

Við getum öll fundið fyrir geðrænum veikindum alveg eins og líkamlegum veikindum. Þegar við erum með geðrænan vanda hefur eitthvað í höfðinu okkar veikst. Heilinn stjórnar því hvernig við hugsum, hegðum okkur og hvernig okkur líður. Stundum þegar okkur líður illa geta hugsanir okkar og tilfinningar breyst svo við hegðum okkur öðruvísi en vanalega.

Það eru mismunandi ástæður fyrir því af hverju einstaklingar fá geðræn veikindi og þau geta haft alls konar áhrif á þá. Þegar fólk veikist á það oft erfitt með að gera hluti eins og að hugsa um sjálft sig eða fjölskyldu sína.

Það getur litið út fyrir að vera sorgmætt og ekki komist fram úr rúminu. Það getur verið mjög glatt eða verður auðveldlega reitt. Sumir heyra eða sjá eitthvað sem er ekki til í raunveruleikanum eða trúa einhverju sem er ekki satt.

Foreldri þínu getur fundist erfitt að tala við þig eða þér getur fundist erfitt að skilja það sem það segir. Það getur verið ógnvekjandi fyrir þig. Þegar foreldri þitt hegðar sér og líður öðruvísi en vanalega er besta lausnin oft sú að það fari inn á geðdeild til þess að því líði aftur vel.

 

innlögn á sjúkrahús

Þegar fólki líður illa getur það orðið ringlað, átt erfitt með að skilja að því vanti hjálp og þurfi að fara á sjúkrahús.

Þegar það gerist getur verið að sjúkraflutningamenn eða lögregla þurfi að hjálpa til og fara með veikt fólk á sjúkrahúsið í sjúkrabíl eða lögreglubíl.

Hjúkrunarfræðingar hugsa um veikt fólk á sjúkrahúsinu með því að tala við það, aðstoða það við að gera daglega hluti og hjálpa því að gera eitthvað sem því þykir skemmtilegt að gera.

Læknar vita hvernig líkaminn virkar og hvað þarf að gera þegar einhver veikist. Geðlæknar vita mjög mikið um geðrænan vanda og hvernig hægt er að hjálpa fólki svo því líði betur.

Sálfræðingar tala við fólk til að skilja hvernig því líður. Starf þeirra kallast samtalsmeðferð og getur hjálpað fólki að líða betur.

Iðjuþjálfar sjá um að þjálfa og hjálpa fólki að gera allskonar hluti eins að búa til mat, gera handavinnu og fleira skemmtilegt. Þeir aðstoða líka fólk við að finna út hvernig aðstoð það þarf þegar það fer heim af sjúkrahúsinu.

Sálgæsluaðilar eru til staðar fyrir fólk til að veita þeim stuðning.

Félagsráðgjafar aðstoða við að skipuleggja og finna út hvaða aðstoð fólk þarf eftir að það útskrifast af sjúkrahúsi. Til dæmis hver aðstoðar veika aðilann heima ef hann þarf hjálp og hvar og hvernig besti stuðningurinn sé til þess að honum líður betur. Börn geta líka hitt félagsráðgjafa sem passar upp á að þau séu örugg og að það sé vel hugsað um þau.

hvenær má ég hitta foreldri mitt?

Þegar foreldri þitt leggst inn á sjúkrahús er ekki víst að þú megir heimsækja það strax. Það er ekki vegna þess að mamma þín eða pabbi vilji ekki hitta þig heldur vegna þess að læknar og hjúkrunarfræðingar vilja að foreldri þínu líði betur áður en þú kemur í heimsókn.

Ef þú vilt getur þú skrifað kort með kveðjum og beðið einhvern fullorðinn um að fara með það til mömmu þinnar eða
pabba.

Þegar foreldri þínu fer að líða betur getið þið kannski talað saman í síma eða þú gætir farið í heimsókn. Það er allt í lagi
þó þú viljir ekki fara í heimsókn eða tala við mömmu þína eða pabba í síma strax. Það getur tekið svolítinn tíma fyrir foreldri þitt að líða betur og þá er kannski best að bíða aðeins með heimsóknina.

Ef þú hefur áhyggjur, ert hrædd/ur eða líður illa er gott að tala við einhvern fullorðinn sem þú treystir. Það er mjög eðlilegt að líða svona. Það er líka mikilvægt að þú hugsir vel um þig og gerir skemmtilega hluti eins og að leika þér eða horfa á sjónvarpið.

hvað gerist þegar foreldri þitt kemur heim af sjúkrahúsinu?

Þegar foreldri þitt fer heim af sjúkrahúsinu getur verið að það þurfi að taka lyf og mun sennilega halda áfram að hitta lækni
eða hjúkrunarfræðing.

Ef þú varst ekki heima á meðan mamma þín eða pabbi fór á sjúkrahús getur verið að þú þurfir að bíða með að fara aftur heim. Það er vegna þess að það tekur tíma fyrir foreldri þitt að líða betur svo það geti séð um sig og fjölskylduna ykkar. Það fólk sem aðstoðar foreldri þitt mun sjá um að skipuleggja hvernig þetta verður hjá ykkur.

Hvar get ég fengið meiri upplýsingar?

Það er allt í lagi að spyrja spurninga.

Þú getur spurt einhvern fullorðinn sem þú treystir, til dæmis einhvern úr fjölskyldunni, kennara, félagsráðgjafa eða fullorðna fólkið sem er að hjálpa foreldri þínu. Þau geta oftast hjálpað til.