Börn

Hvað eru geðsjúkdómar?

Geðsjúkdómar hafa áhrif á hvernig manni líður, hvernig maður hugsar og hvernig maður hegðar sér.

Það sem er sérstakt við geðsjúkdóma er að þeir sjást ekki utan á fólki – en þeir hafa samt mikil áhrif. Ef einhver brýtur á sér handlegginn þá fær hann gips utan um höndina. Þá sjá allir að manneskjan er slösuð og þarf hjálp. Þegar einhver er með geðsjúkdóm þá sjást engin sár eða gips – en manneskjan er samt veik og þarf líka hjálp og stuðning.

Hér er myndband sem útskýrir hvað gerist þegar fólk veikist

No items found.

Geðsjúkdómar geta verið svolítið eins og veðrið:

Stundum er sól og blíða – en svo breytist allt snögglega og það kemur stormur. Einn daginn getur foreldri verið glaðlegt og með mikla orku en næsta dag líður því kannski illa, vill ekki tala eða á erfitt með að gera hluti.

Þetta gerist stundum þegar foreldri er veikt – og það er alls ekki barninu að kenna. Börn geta ekki lagað geðsjúkdóma eða valdið þeim og þau eiga alltaf rétt á að fá stuðning og upplýsingar.

Þeir sem eru með geðsjúkdóma þurfa stundum að fá aðstoð, til dæmis hjá lækni, hjúkrunarfræðingi eða ráðgjafa. Það er eins og að fá hjálp við höfuðverk – nema fyrir hugann og hjartað.

Það eru til alls konar tegundir af geðsjúkdómum

Sumir verða mjög kvíðnir og fá óþægilegar hugsanir sem erfitt er að stoppa. Aðrir verða mjög leiðir og missa alla orku, jafnvel í langan tíma. Sumir lenda í því að sjá eða heyra hluti sem aðrir sjá ekki og verða hræddir eða ruglaðir. Það getur líka verið að manneskja sveiflist mikið í líðan og skapi – stundum ofboðslega glöð og orkumikil en svo mjög niðurdregin og orkulítil.

Engir tveir eru eins og geðsjúkdómar geta verið alls konar.

Algengir geðsjúkdómar

Kvíðaröskun
Plus iconMinus icon

Kvíðaröskun er þegar hugurinn er fullur af áhyggjum og líkamanum líður eins og það sé hætta á ferð – jafnvel þegar það er engin hætta. Fólk getur fundið fyrir hröðum hjartslætti, ógleði eða átt erfitt með að einbeita sér. Þetta er smá eins og að vera með storm í maganum.

Geðrof
Plus iconMinus icon

Geðrof er ekki tegund af geðsjúkdómi en fólk sem er veikt getur farið í geðrof – þá getur það heyrt raddir eða séð hluti sem aðrir heyra ekki eða sjá ekki. Það getur orðið mjög hrætt eða átt erfitt með að skilja hvað er raunverulegt og hvað ekki.

Geðhvörf
Plus iconMinus icon

Hjá fólki með geðhvörf getur líðan og orka sveiflast mikið, stundum er fólk með mikla orku en stundum orkulítið og dapurt. Þegar fólk er orkumikið þarf það kannski að sofa minna en vanalega og sumir tala mjög mikið. En svo koma tímabil þar sem fólk verður mjög niðurdregið og þreytt. Það er eins og batteríin séu annaðhvort of hlaðin eða alveg tóm.

Persónuleikaraskanir
Plus iconMinus icon

Sumt fólk sem á erfitt með tilfinningar og sambönd við aðra er með það sem kallast persónuleikaraskanir. Það getur orðið óöruggt, haldið að aðrir séu reiðir við sig eða átt erfitt með að stjórna skapinu sínu.

Fíknisjúkdómar
Plus iconMinus icon

Fíknisjúkdómur er þegar fólk byrjar að nota efni eins og áfengi eða önnur vímuefni og heilinn fer að venjast því og fer að vilja efnin aftur og aftur – jafnvel þó það sé slæmt fyrir þau eða aðra í kringum þau. Fíknisjúkdómur getur haft mikil áhrif á hvernig fólk hugsar, hvernig því líður og hegðar sér. Fólk getur til dæmis orðið reiðara, sveiflukenndara eða gleymið. Það getur líka oft verið þreytt eða veikt. Fíkn breytir því hvernig heilinn virkar. Það er eins og hann fái villuboð – eins og bilaður sími sem segir aftur og aftur: „Þú þarft þetta!“ Jafnvel þó það sé ekki satt og jafnvel þó að manneskjan vilji hætta. Þá getur verið mjög erfitt fyrir fólk með fíknisjúkdóm að gera það sem er rétt.

Geðklofi
Plus iconMinus icon

Þegar fólk er með geðklofa ruglast hugurinn stundum á hvað er raunverulegt og hvað ekki. Fólk með geðklofa getur til dæmis heyrt raddir sem aðrir heyra ekki eða haldið að eitthvað sé satt sem er ekki raunverulegt. Það getur verið ruglingslegt og erfitt, bæði fyrir manneskjuna sjálfa og aðra í kring.

Tengt efni