Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Börn
Ungmenni 13-17 ára
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Foreldrar
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Foreldrahlutverkið krefst orku, nærveru, umburðarlyndis og ábyrgðar. Þegar foreldri glímir við geðræn veikindi geta þessar kröfur virst yfirþyrmandi á köflum. Veikindin geta haft áhrif á hvernig foreldri upplifir sig í hlutverki sínu, hvernig það tengist barninu sínu og hvernig það tekst á við dagleg verkefni og samskipti innan fjölskyldunnar.
Foreldrar sem glíma við geðræn veikindi geta upplifað sterkar og jafnvel mótsagnakenndar tilfinningar í tengslum við foreldrahlutverkið. Sum finna fyrir sorg yfir að ná ekki alltaf að vera það foreldri sem þau vilja vera eða yfir því að veikindin setji mark sitt á fjölskyldulífið. Önnur upplifa þreytu, leiða eða jafnvel doða – eins konar tilfinningalegt fjarlægðarástand sem getur valdið sektarkennd og vanlíðan.
Það getur verið erfitt að útskýra þessa upplifun fyrir öðrum – jafnvel fyrir sjálfum sér – og margir spyrja sig: Af hverju get ég ekki bara glaðst yfir barninu mínu eins og aðrir?
Sumir foreldrar finna einnig fyrir reiði – bæði út í veikindin sjálf og aðstæðurnar, en stundum beinist hún inn á við eða að nánustu aðstandendum. Slík reiði er oft fylgifiskur vonbrigða og vanmáttar. Þá verður sjálfsmynd foreldrisins viðkvæm og margir upplifa að þeir standist ekki eigin væntingar eða bregðist barninu sínu.
Það er algengt að foreldrar upplifi skömm, sérstaklega þegar þeir telja sig ekki uppfylla samfélagslegar hugmyndir um hvernig „gott“ foreldri eigi að vera. Skömmin og sektarkenndin blandast gjarnan saman við vanmátt, sem getur grafið undan sjálfstrausti og sjálfsmynd. Þá verður erfiðara að treysta á eigið innsæi, finna öryggi í uppeldishlutverkinu eða leyfa sér að njóta samveru með barninu sínu.
Margir foreldrar sem glíma við geðræn veikindi setja óraunhæfar kröfur á sig og reyna að standa sig 200% til að bæta fyrir veikindin. En það er mikilvægt að muna að ekkert foreldri er fullkomið, hvort sem veikindi eru til staðar eða ekki.
Slíkar hugsanir geta verið mjög þungbærar og ýtt undir óöryggi í foreldrahlutverkinu. En á sama tíma eru þær líka merki um djúpa umhyggju, ábyrgðartilfinningu og áhyggjur af velferð barnsins. Þær sýna að foreldrið vill barninu sínu það besta, og einmitt þessi umhyggja er grunnurinn að því að vera gott foreldri.
Það er mikilvægt að muna að þessar tilfinningar eru ekki merki um að þú sért slæmt foreldri – heldur eðlileg viðbrögð við erfiðum aðstæðum. Þú ert ekki ein/einn/eitt – margir foreldrar sem glíma við geðræn veikindi eiga í svipuðum tilfinningalegum átökum.
Mikilvægt er að muna að allar fjölskyldur ganga í gegnum erfið tímabil - það er hluti af lífinu. Það sem skiptir máli er hvernig fjölskyldan tekst á við erfiðleikana og lærir að lifa með þeim!
Þrátt fyrir áskoranirnar eru ýmsir verndandi þættir sem skipta miklu máli og geta veitt bæði þér sem foreldri og barninu þínu stuðning:
Með þessa þætti að leiðarljósi geta foreldrar sem glíma við geðræn veikindi sinnt uppeldishlutverkinu af alúð, ábyrgð og kærleika – jafnvel þó að sumir dagar séu erfiðari en aðrir.
Börn geta dafnað vel þrátt fyrir að foreldri glími við geðsjúkdóm, sérstaklega ef þau fá stuðning og aðstæður innan fjölskyldunnar einkennast af öryggi og trausti.
Það sem skiptir mestu máli er ekki að allt sé fullkomið, heldur að fjölskyldan geti talað saman, leitað lausna í sameiningu og fundið leiðir til að lifa með veikindunum.
Vonandi veita upplýsingar á þessari síðu þér styrk og hvatningu – og minna þig á að veikindin skilgreina þig ekki sem foreldri. Með opnum samtölum við barnið þitt og stuðningi frá umhverfinu er hægt að skapa öruggt og styðjandi umhverfi fyrir fjölskylduna.