Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Börn
Ungmenni 13-17 ára
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Foreldrar
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Margir foreldrar sem glíma við geðsjúkdóma velta því fyrir sér hvort þeir eigi að ræða um veikindin við barnið sitt. Slíkar vangaveltur vekja gjarnan upp fjölmargar spurningar hjá foreldrum:
Hvað á ég að segja? Hversu mikið á ég að segja? Hvernig á ég að byrja? Ætli barnið mitt hafi tekið eftir einhverju? Hverju ætli það hafi tekið eftir? Ætli það hafi kannski ekki tekið eftir neinu? Verður það kannski áhyggjufullt ef ég segi því frá?
Ef þú kannast við þetta ertu svo sannarlega ekki ein/einn/eitt! Það er eðlilegt að finna fyrir óöryggi og ótta við að opna á þetta samtal við barnið sitt og flestir foreldrar þurfa stuðning og hvatningu í að taka af skarið.
Mörgum foreldrum finnst tilhugsunin um að ræða um veikindin við barnið erfið. Sumir óttast að slíkt samtal sé barninu íþyngjandi og vilja hlífa barninu við óþarfa áhyggjum og uppnámi. Þessar áhyggjur eru eðlilegar enda er eitt af því erfiðasta við foreldrahlutverkið að þurfa að horfast í augu við að hafa gert barninu sínu lífið erfitt. Sannleikurinn er hins vegar sá að þegar þögn ríkir um veikindi innan fjölskyldna skapar það oftar en ekki enn frekari áhyggjur og óöryggi hjá börnum. Þegar þagað er yfir vandamálum sem snerta alla fjölskylduna geta samskiptin orðið flókin og farið að litast af óöryggi, reiði, pirringi og vantrausti. Það skapar þá hættu að fjölskyldumeðlimir fjarlægist hvern annan sem eykur enn frekar álag og streitu innan fjölskyldunnar.
Börn eru næm á foreldra sína og skynja gjarnan minnstu breytingar í fari þeirra. Fái börn ekki viðhlítandi skýringar á því sem hrjáir veikt foreldri þeirra er ákveðin hætta á að þau fylli sjálf í eyðurnar og dragi eigin ályktanir um ástandið. Þar ræður fjörugt ímyndunarafl og sjálflæg hugsun barna gjarnan för sem getur skapað margvíslegan misskilning hjá þeim, svo sem að veikindin séu þeim að kenna eða að þau geti á einhvern hátt lagað ástandið, jafnvel læknað foreldri sitt. Þegar börn fá þessar hugmyndir getur það skapað djúpstæða sektarkennd og skömm hjá þeim og þá hættu að þau einangri sig og taki að sér aukna ábyrgð.
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að þegar foreldrar ræða erfiðleika sína á opinskáan hátt, á máli sem barnið skilur, spjarar barnið sig betur. Að opna á umræðu um veikindin við barnið þitt getur hjálpað því að skilja þær breytingar sem það skynjar hjá þér í veikindunum og það veit þá líka að það ber enga ábyrgð á þeim. Barninu finnst í rauninni gott að öðlast skilning á því hvers vegna sumt er öðruvísi núna og vita að þú vinnir í því að hafa stjórn á veikindunum.
…barninu verða ljóst að það sé í lagi að tala um geðsjúkdóma
…barnið geta borið upp spurningar og fengið réttar upplýsingar
…barnið geta leitað til þín eða annarra þegar það er áhyggjufullt eða því líður illa
…barnið átta sig á að veikindin eru ekki því að kenna
…skilningur þess aukast - sem hefur jákvæð áhrif á samband ykkar